Óperudagar í Reykjavík er tilraunakennd tónlistarhátíð sem er tileinkuð klassískri sönglist, söngvurum og samstarfsfólki þeirra. Markmið hennar er að bjóða upp á vandaða söngviðburði á venjulegum og óvenjulegum stöðum um allan bæ og úti á landi sem og að efla starfsvettvang þeirra sem starfa á þessu sviði. Áhersla er lögð á alþjóðlegt og innlent samstarf, samfélagsleg verkefni, ýmiss konar tilraunir og viðburði fyrir alla aldurshópa. Hátíðin var valin Tónlistarhátíð ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2018.


Aðstandendur

Aðstandendur Óperudaga eru ungir söngvarar og sviðslistafólk sem hafa ástríðu fyrir því að efla óperu- og tónlistarleikshússenuna á Íslandi. Við lítum á okkur sem samfélagslega grasrótarhreyfingu sem hefur það að markmiði að auðga og lífga upp á samfélagið. Guja hefur verið listrænn stjórnandi frá upphafi en fyrsta hátíðin var haldin í Kópavogi árið 2016. Árið 2018 störfuðu Guja og Ása Fanney Gestsdóttir saman sem listrænir stjórnendur hátíðarinnar.