Guja Sandholt starfar sem sjálfstætt starfandi söngkona og listrænn stjórnandi Óperudaga. Hún kemur reglulega fram sem einsöngvari og kórsöngvari í óperum, óratoríum, á tónleikum og ýmiss konar viðburðum. Auk þess gegnir hún hálfri stöðu hjá Hollenska útvarpskórnum í Hollandi.
Nýlega söng hún hlutverk Leonoru í uppfærslu Óperudaga á Fidelio - atlaga að óperu eftir Beethoven í leikstjórn Bjarna Thors Kristinssonar; Mattheusi unga í leikstjórn Albert Hoex, Verdi Requiem með Norðurópi, Mozart Requiem Singalong í Hallgrímskirkju og Ríkharði III, óperu í smíðum eftir Sigurð Sævarsson. Hún hefur flutt Súkkulaðikökuóperuna Bon appétit! eftir Lee Hoiby á O. Festival í Rotterdam, Eistlandi og víða á Íslandi. Á næstunni mun taka þátt í flutning á Stabat mater eftir Arvo Pärt í Hallgrímskirkju, Mattheus Junior í Deventer í Hollandi og koma fram á Bach-Week-hátíðinni í Luther Museum í Amsterdam. Auk þess er hún í óðaönn að skipuleggja ýmsa viðburði Óperudaga á þessu og næstu árum. Hún hefur komið fram sem einsöngvari í óratóríum á borð við Mattheusarpassíunni, Messíasi, Messu í C efitr Beethoven, Stabat mater eftir Dvorak og Arvo Pärt sem og Little Match Girl Passion eftir David Lang. Guja kemur reglulega fram með Heleen Vegter, ljóðapíanista.
Hugurinn hneigðist snemma til tónlistar og umhverfið mótaðist af henni. Daglegur morgunsöngur í Laugarnesskóla, tónlistaráhugi foreldranna, píanótímar hjá Erlu Stefáns og þátttaka í kórastarfi Langholtskirkju höfðu sterk áhrif í barnaæsku og settu tóninn fyrir það sem koma skyldi.
Guja stundaði píanó- og söngnám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Svönu Víkings, Ruth Magnússon og Alinu Dubik. Framhaldsnámi lauk hún frá Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og Konservatoríinu í Utrecht í Hollandi hjá Jóni Þorsteinssyni og Charlotte Margiono. Frá árinu 2017 hefur hún sótt einkatíma hjá Stephanie Doll í Düsseldorf.
Nú til dags hefur Guja mikinn áhuga á að fást við fjölbreytt verkefni með áherslu á tónlist og samfélagsleg gildi. Þess vegna hafa Óperudagar verið dýrmætt tækifæri til að kanna nýjar söngslóðir á Íslandi og um leið mynda þéttan kjarna af fólki með svipaðar ástríður og markmið.