Tree Opera/Trjáóperan eftir lettneska tónskáldið Anna Kirse er óvenjulegt og áhrifamikið nútímaverk sem er flutt af 8 söngvurum og lítilli hljómsveit undir berum himni í skóglendi. Skógurinn er leiksviðið og áhorfendum er boðið upp á einstaka upplifun þar sem tenging þeirra við náttúruna og skóginn sjálfan er í fyrirrúmi. Höfundur óperunnar leitaði innblásturs í nýjustu rannsóknir á sviði lífeðlisfræði plantna og vistfræði skóga sem sýna fram á að tré deila upplýsingum og næringarefnum í gegnum neðanjarðarnet sveppa. Í staðinn fyrir að líta á tré sem sjálfstæðar og aðskildar lífverur sem keppast um auðlindir, er athyglinni beint að skóginum sjálfum og hversu táknrænt það er að trén séu í raun í samskiptum sín á milli og við aðrar lífverur. Þetta samband leiðir af sér sameiginlega vitund eða skógarvisku (e. forest wisdom).
Í verkinu má finna þemu og áherslur sem eiga sérstaklega vel við ástandið í heiminum í dag. Mannkynið keppist við að finna leiðir til að vernda náttu?runa og forða okkur frá hamförum af völdum loftslagsbreytinga. Hvernig getur listin hjálpað okkur á þeirri vegferð? Hvað getum við lært af samskiptum trjánna? Líbrettóið er á latínu en aðalpersónur verksins - ræturnar, trjábolirnir, greinarnar, laufin og sveppakórinn - fara í gegnum hringrás sköpunar og dauða sem leiðir svo til skilnings á lífinu og þeirrar vitneskju að það sé samfellt og í stöðugu ferli.
Guja vinnur nú að því að fá Trjáóperuna til Íslands sumarið 2022 ásamt samstarfsfólki hérlendis og erlendis. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Óperudaga, New Music for Strings-hátíðina og Skógræktarfélag Reykjavíkur. Tónlistarsjóður styrkir verkefnið.